olimarteins-2.png

Ávarp formanns

Ágæti félagsmaður

Það skiptust á skin og skúrir í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi á árinu 2021. Það er ekki óþekkt. Sumar áskoranir eru kunnuglegar, aðrar ekki. COVID-19 hélt áfram og setti strik í reikninginn hjá fyrirtækjum innan okkar raða. Þau þurftu að endurhugsa margt og eins og fyrri daginn þá fundust viðunandi lausnir á flestum vandamálum. Veldur þar mestu þrautseigja og útsjónarsemi starfsmanna og stjórnenda. Viðbúið er að einhverjar ráðstafanir sem gripið var til séu komnar til að vera. Tíminn mun leiða það í ljós.

Staða á erlendum markaði er afgerandi fyrir allar útflutningsgreinar, hvaða nafni sem þær nefnast. Verðþróun þar var hagstæð, hvort sem litið er til villta fisksins eða eldisfisks. Ekki verður annað séð en að sú þróun haldi áfram. Það er þó ekki bara að verð á afurðum sem hefur hækkað, hið sama á við um öll aðföng. Til að nefna einn stóran lið í rekstri fyrirtækja þá hefur svokallað plattsverð á olíu hækkað um 2/3 frá janúar 2021 til janúar 2022. Slík hækkun rífur í, sérstaklega hjá útgerðarflokkum sem stóðu veikt fyrir. Verð á fóðri fyrir fiskeldi hefur á sama tíma hækkað um tugi prósenta.

Múlabergið

Veiðar gengu almennt sæmilega á árinu 2021 og þau ánægjulegu tíðindi urðu að loðnuveiði var heimiluð, eftir tveggja ára hlé. Verri sögu er að segja um þorskinn. Þótt búist hefði verið við einhverjum niðurskurði olli ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar miklum vonbrigðum. Ráðgjöfin hljóðaði upp á 222 þúsund og hefur dregist saman um 50 þúsund tonn á tveimur árum. Þrátt fyrir að samdráttur í þorski valdi miklum skaða fyrir samfélagið allt, er nokkuð góð samstaða um að hlíta beri ráðgjöf sérfræðinga. Hafa ber í huga að hrygningarstofn þorsks hefur ekki verið sterkari frá árunum á milli 1950 og 1960. Til einhvers hefur því verið barist. Hér ber að horfa fram veg því langtímahorfur eru góðar.

Ráð sérfræðinga eru lítils virði ef þeir hafa ekki svigrúm, aðstöðu og fjármagn til þess að stunda nauðsynlegar rannsóknir. Þörfin á hafrannsóknum hefur aukist vegna breytinga í umhverfi okkar og þá hafa rannsóknir vegna fiskeldis bæst við. Aðgangur að mörkuðum fyrir villtan fisk er háður því að nýting fiskistofna sé með sjálfbærum hætti og að sú sjálfbærni sé studd með ítarlegum og hlutlausum rannsóknum. Nýtt hafrannsóknaskip er væntanlegt og það er afar ánægjulegt, því stjórnvöldum ber skylda til að standa vel að og styðja hafrannsóknir.

Laxar

Mig langar að minnast ögn á öryggi sjófarenda þar sem þyrlur Landhelgisgæslunnar gegna stóru hlutverki. Á því hefur borið að undanförnu að ekki hefur verið hægt að sækja slasaða og/eða veika sjómenn á haf út ef bátur eða skip eru lengra undan ströndum en 20 sjómílur. Þegar aðeins ein björgunarþyrla er til taks er áhöfn hennar ekki heimilt að fara lengra frá landi. Þá þarf að sigla til móts við þyrluna og getur því tekið nokkurn tíma þar til hinn slasaði eða veiki kemst undir læknishendur. Hér geta mínútur skipt máli. Þegar þessi staða kemur upp er lífi og heilsu sjómanna og annarra sjófarenda stofnað í voða. Það eykur hættu á alvarlegum atvikum og dregur úr öryggistilfinningu fólks á hafi úti. Stjórnvöld verða að huga betur að þessum þætti.

Samtök eins og okkar byggjast á þátttöku félagsmanna og ég vil nota tækifærið til þess að hvetja félagsmenn til að huga að þeim þætti. Láta í sér heyra og koma sjónarmiðum sínum milliliðalaust til starfsmanna á skrifstofunni. Það er nauðsynlegt að skiptast á skoðunum um það sem betur má fara og einnig um það sem vel er gert. Slíkt eykur gagnkvæman skilning, styrkir tengslin og samstarfið. Að lokum vil ég þakka starfsmönnum SFS fyrir kraftmikið starf í þágu samtakanna.