Siglufjörður

Umhverfismál

Ábyrgur sjávarútvegur

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru afar smá í samanburði við hin stærstu í þessum heimi. Samt eru það fyrirtækin sem hin íslensku etja kappi við á alþjóðlegum markaði. Það er lífsspursmál fyrir íslenskan sjávarútveg að hann hafi svigrúm til þess að vaxa og dafna. Að öðrum kosti verður hann ekki samkeppnishæfur. Til þess þarf sæmilega stöðugt rekstrarumhverfi. Einkum vegna þess að fjárfesta þarf í dýrum og skilvirkari skipum, húsum og tækjum. Án fjárfestinga verður íslenskur sjávarútvegur ekki samkeppnishæfur.

Dalvík 1

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að óvissa um lífríki hafsins er ærin, svo ekki bætist nú við sífelldar upphrópanir um að gera þurfi stórfelldar breytingar á kerfinu. Höfum í huga að það er kúnst að fást við náttúruna, hið síðarnefnda er manngert. Þáttur sjávarútvegs er þar stór en til þess að draga úr pólitískri óvissu verður framferði sjávarútvegsfyrirtækja að vera með þeim hætti að sú krafa rísi ekki í samfélaginu að breytinga sé þörf. Það verður með öðrum orðum að upplýsa með greinargóðum hætti um áhrif af starfsemi fyrirtækjanna. Þá er gott að seilast í vegvísi; samfélagsstefnu sjávarútvegsins. Vinna við gerð hennar hófst í byrjun árs 2020. Haldnir voru fjórir opnir fundir um gagnsæi, umhverfismál, nýsköpun og hvernig sjávarútvegur skilar mestum ábata til samfélagsins. Íslenskur sjávarútvegur er ekki alveg ókunnugur umhverfis- og samfélagsmálefnum, síður en svo, en við viljum gera betur. Og til þess er alltaf svigrúm.

Grunnur samfélagsstefnu sjávarútvegs var sóttur til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Nánar til tekið númer 14, lífs í hafi, sem er grundvöllur nýtingar og afkomu sjávarútvegs. Einnig var litið til markmiðs númer 9, nýsköpunar og uppbyggingu, því án nýsköpunar og fjárfestinga verður íslenskur sjávarútvegur einfaldlega dæmdur úr leik. Önnur heimsmarkmið stefnunnar eru:

  • númer 5 - Jafnrétti kynjanna
  • númer 8 - Góð atvinna og hagvöxtur
  • númer 12 - Ábyrg neysla og framleiðsla
  • númer 13 - Aðgerðir í loftslagsmálum
  • númer 16 - Friður og réttlæti
stefnuhringur.png

Fyrirtækin hyggjast auka gagnsæi og upplýsingagjöf um þá þætti sem nefndir eru í stefnunni. Það eru ákveðnar kröfur gerðar til fyrirtækja sem nýta auðlindir um að þau geri það með forsvaranlegum, ábyrgum og gagnsæjum hætti. Því á fólk rétt á að vita hvað fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi eru að fást við hverju sinni. Sjávarútvegur á Íslandi ber ábyrgð gagnvart samfélaginu sem hann er hluti af og starfar fyrir. En orð án athafna eru einskis virði og hér eru dæmi um verkefni sem hafa verið í gangi eða ráðist hefur verið í frá því að samfélagsstefnan var gefin út:

  • SFS, ásamt fleiri atvinnuvegasamtökum, gáfu út Loftslagsvegvísi atvinnulífsins í júní 2021. Þar er farið yfir stöðuna í loftslagsmálum og hvað þurfi til þannig að markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum verði náð.
  • Eftir útkomu skýrslu um græn skref í sjávarútvegi undirrituðu SFS og stjórnvöld samstarfsyfirlýsingu í september um að leita leiða til að draga enn frekar úr losun innan sjávarútvegs og ná markmiði um 50% samdrátt í losun fyrir árið 2030.
  • Ráðist var í verkefni um fræðslu á úrræðum gegn brottkasti.
  • Opnuð var kolefnisreiknivél fyrir félagsmenn sem er ágæt til að hefja mælingar á kolefnisspori fyrirtækja, meta hvar þau standa og hvar tækifærin liggja.
  • Endurskipulagning skilakerfis vegna veiðarfæraúrgangs fór fram þar sem opnaðar voru 14 móttökustöðvar kringum landið í samstarfi við Hampiðjuna, Ísfell, Egersund, Veiðarfæragerð Skinneyjar-Þinganess, Netaverkstæði G.Run og Veiðarfæraþjónustuna ehf.
  • Unnið var að samstarfsverkefni um móttöku á flokkuðu sorpi í höfnum.
  • Fyrirtæki innan SFS hafa unnið að því að innleiða samfélagsstefnuna og auka gagnsæi en á árinu 2021 voru fjölmargar samfélagsskýrslur gefnar út af fyrirtækjum innan SFS þar sem fjallað er um þá þætti sem nefndir eru í samfélagsstefnu sjávarútvegs.

Er ekki kominn tími til að tengja?

Yfirskrift ársfundar SFS í ár er: Hvert liggur straumurinn? Spurningin hefði getað verið: Hvar er straumurinn? Íslenskum sjávarútvegi hefur gengið vel að draga úr olíunotkun á undanförnum áratugum, án þess að það hafi komið niður á útflutningsverðmæti sjávarafurða. Eða nú þegar hefur verið dregið úr olíunotkun um hátt í 50% frá árinu 1990. Umræða um orkuskipti á öllum sviðum var hávær á árinu.

Landtenging á rafmagni_Smári Geirsson_SVN.jpg

Þær fréttir bárust í lok árs að ekki væri til næg raforka til þess að knýja fiskimjölsverksmiðjur á Íslandi og skerðinga væri þörf; á einni stærstu loðnuvertíð í manna minnum. Fiskimjölsverksmiðjur hafa skipt út olíu fyrir rafmagn þar sem innviðir duga til. Þá kemur upp sú staða að raforka er einfaldlega ekki í boði, á sama tíma og þess er krafist að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti. Það er óásættanlegt að brenna þurfi þúsundum tonna af olíu til þess að knýja fiskimjölsverksmiðjur sem geta gengið fyrir rafmagni. Það stendur upp á stjórnvöld að tryggja nægt rafmagn til verksmiðja þar sem orkuskipti hafa þegar farið fram. Krafa um að atvinnulífið fjárfesti í orkuskiptum er eðlileg en henni verða að fylgja traustir innviðir og næg orka. Atvinnulíf þarf að geta treyst á slíkt til að halda starfsemi gangandi. Því er augljóst að orkuskipti eru ekki verkefni einnar atvinnugreinar heldur fjölmargra aðila. Samstarf sjávarútvegs og stjórnvalda, sem undirritað var í september 2021, er áfangi á þeirri leið.

Það er nokkuð víst, miðað við ástandið í loftslagsmálum og markmiðum stjórnvalda, að orkuskipti á hafi munu þurfa að eiga sér stað. En margt verður að ganga upp til að svo megi verða. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samorka, umhverfisráðuneytið og Faxaflóahafnir fengu norska ráðgjafarfyrirtækið DNV til að meta orkuþörf flotans og möguleika á orkuskiptum. Í stuttu máli má segja að tækni til þess að skipta út jarðefnaeldsneyti í fiskiskipum sé enn ekki nægilega „þroskuð“. Öryggi er talið vera helsta hindrunin í flestum tilvikum sem og rúmmálsþéttleiki (umfang) orkugjafa og kostnaður auk annarra þátta.

Þjóðir heims vilja draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti. Af þeim sökum hefur minna verið fjárfest í vinnslu á því á undanförnum árum. Órói á alþjóðavettvangi, stríð til dæmis, hefur á hinn bóginn opinberað að varasamt er að treysta um of á eina uppsprettu orku. Þeim mun heldur verða íslensk stjórnvöld að tryggja framboð á rafmagni svo ráðast megi í orkuskipti. Raunar snýst þetta ekki bara um orkuskipti, hér er orkuöryggi líka undir. Þótt ekki sé ljóst hvenær fiskiskip verða knúin með grænni orku er önnur orkufrek starfsemi í færum til þess að gera það, eins og fiskimjölsverksmiðjurnar sem áður var getið. Þegar framboð á jarðefnaeldsneyti er takmarkað með einhverjum hætti er hægt að bregðast við því, að hluta til, með því að draga úr notkun. Þá þarf líka að vera eitthvað annað í boði og gott ef hægt væri að framleiða það að hluta til á Íslandi.

Endurnýting

Þeir sem sækja sjóinn bera ábyrgð gagnvart lífríki hafsins. Og enginn á eins mikið undir lífvænlegum aðstæðum í hafinu og þeir aðilar sem byggja afkomu sína á nýtingu þess sem þar er að finna.

Hér er yfirlit um skilakerfi sem sjávarútvegurinn og veiðarfæragerðir bera sameiginlega ábyrgð á og nær bæði til útgerða og eldis. Það felst einfaldlega í því að skila veiðarfærum á móttökustöð. Ekki ósvipað því að fara með flokkaðan úrgang til Sorpu. Allir sem þurfa að skila veiðarfærum geta notfært sér kerfið. Móttökustaðir eru merktir með rauðum punktum á kortinu.

Ísland_móttökustaðir.png

Upplýsingar um fyrirkomulag og móttökustaði verða aðgengilegar á samfelag.sfs.is og eru aðilar hvattir til að nýta sér kerfið fyrir úr sér gengin og afskrifuð veiðarfæri.

SFS hefur óskað eftir góðu samstarfi við útgerðir, fiskeldisfyrirtæki, hafnir og sveitarfélög til að koma efninu á réttan stað og leysa sameiginlega þau mál sem upp kunna að koma. Vel hefur verið tekið vel í þá málaleitan.