Óhætt er að fullyrða að fáar atvinnugreinar á Íslandi séu í jafnmikilli sókn og fiskeldi um þessar mundir. Á hverju ári er hvert framleiðslumetið á fætur öðru slegið og árið 2021 var engin undantekning þar á. Rúmlega 53 þúsund tonnum af eldisfiski var slátrað á árinu 2021, sem er met. Það er um þriðjungsaukning á milli ára og ríflega sjöföldun tíu ára tímabili. Þessa miklu aukningu má að langstærstum hluta rekja til laxeldis en alls var um 46,5 þúsund tonnum af laxi slátrað á árinu. Það er um 35% aukning á milli ára en um sextánföldun á tíu ára tímabili. Þegar skipting framleiðslu í laxeldi er skoðuð sést að 44,5 þúsund tonn komu frá eldi í sjó en um 2 þúsund tonn frá landeldi. Miðað við áform sem eru uppi um aukið landeldi á laxi mun sá hluti eldisins vafalítið vaxa mikið á komandi árum en eldi í sjó mun einnig halda áfram að vaxa.
Þrátt fyrir að lax sé umfangsmesta tegundin sem alin er hér á landi þá ala Íslendingar allra þjóða mest af bleikju. Alls var um 5,4 þúsund tonnum af bleikju slátrað í fyrra sem er um 2% minna en árið á undan. Sé hins vegar borið saman við árið 2019, og þá fyrir COVID-19, er um 15% samdrátt að ræða. Þennan samdrátt má að mestu rekja til færri ferðamanna vegna COVID-19 en bleikjan er mun háðari innanlandsmarkaði en lax. Hinn alþjóðlegi markaður fyrir bleikju er jafnframt langtum smærri en fyrir lax. Eldi á öðrum tegundum er minna en alls var um 950 tonnum af regnbogasilungi slátrað á árinu og um 340 tonnum af Senegalflúru.
Umfang fiskeldis er mjög mismunandi eftir landshlutum. Mest er það á Vestfjörðum þar sem 27,4 þúsund tonnum af eldisfiski var slátrað í fyrra, sem er um 22% aukning á milli ára. Mesta aukningin var þó á Austurlandi þar sem rúmlega 17,5 þúsund tonnum af eldisfiski var slátrað, sem er um 71% aukning á milli ára. Þó er rétt að hafa í huga að umfang fiskeldis byggist ekki eingöngu á fjölda tonna sem slátrað er á hverjum stað. Bleikja og lax eru að sjálfsögðu misstórir fiskar, framleiðsluferli geta verið mismunandi og Suðurland er langstærst í klaki og seiðaræktun fyrir aðrar eldisstöðvar. Þar að auki er kynbótastöð fyrir bleikju á Norðurlandi vestra og eystra sem sér öllum öðrum bleikjustöðvum fyrir hrognum. Af þessu er ljóst að fiskeldi er víða um land og kærkomin búbót fyrir efnahagslíf einstakra landshluta.
Á liðnu ári komu til framkvæmda áform stjórnvalda um birtingu á helstu upplýsingum um stöðu og þróun fiskeldis í landinu. Sett var á stofn teymi hugbúnaðarfólks hjá MAST sem vann að undirbúningi og uppsetningu svokallaðs „Mælaborðs fiskeldis“ sem opnað var með athöfn 15. apríl.
Þar má finna allar helstu upplýsingar um stöðu fiskeldis í sjó og á landi. Fyrirhugað er að upplýsingarnar muni nýtast við eftirlit Matvælastofnunar og stefnumótun stjórnvalda um fiskeldi. Þá munu þær einnig nýtast hagaðilum og almenningi til að fá heildstæðar upplýsingar um stöðu og framvindu fiskeldis á Íslandi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (nú matvælaráðuneytið) og Hafrannsóknastofnun ákváðu í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og álits Skipulagsstofnunar að vinna umhverfismatsskýrslu fyrir burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar. Það var gert í samræmi við ný lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Það var í fyrsta sinn sem slíkt umhverfismat er unnið og má gera ráð fyrir því að nálgun og umfang umhverfismatsins þróist til framtíðar litið þegar breytingar verða gerðar á burðarþols- og áhættumati.
Tillaga að burðarþolsmati og áhættumati erfðablöndunar, ásamt umhverfismatsskýrslu, var kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda 25. október 2021 og á heimasíðu Skipulagsstofnunar 27. október 2021. Ráðuneytið, í samvinnu við Hafrannsóknastofnun, yfirfór umsagnir og brugðist var við ábendingum með breytingum á umhverfismatsskýrslunni þar sem við átti.
Niðurstaða umhverfismatsins leiddi hvorki til breytinga á burðarþolsmati né áhættumati Hafrannsóknastofnunar en fjallaði þó um tilteknar mótvægisaðgerðir og vöktun sem mikilvægt er að fylgja til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sjókvíaeldis. Miðað er við að Hafrannsóknastofnun geri viðauka við umhverfismatsskýrsluna þegar breytingar verða á burðarþolsmati og áhættumati.
Árið 2017 vann KPMG skýrslu fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga „Laxeldi í Ísafjarðardjúpi“. Þar eru greind áhrif laxeldis á efnahag og íbúaþróun á svæðinu. Frá þeim tíma og til dagsins í dag hefur umfang fiskeldis aukist verulega á Vestfjörðum. Ákveðið var að uppfæra skýrsluna á liðnu ári.
Um er að ræða sambærilega greiningu og í fyrri skýrslu KPMG en auk þess er tekið tillit til reynslutalna af uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum. Skýrslan kom út í byrjun árs 2021 undir heitinu „Greining á áhrifum fiskeldis á Vestfjörðum“. Eftirfarandi eru helstu niðurstöður:
Íbúaþróun, atvinnutekjur, störf og leyfi til framleiðslu
Mat á áhrifum
Í framhaldi af útgáfu skýrslunnar gerðu sveitarfélög á Vestfjörðum með sér samfélagssáttmála um að styðja við greinina með það að markmiði að efla atvinnulíf og mannlíf með heildarhagsmuni Vestfjarða að leiðarljósi.
Fiskeldi er orðið raunverulegur stólpi undir atvinnu- og efnahagslíf á Íslandi og áhrif fiskeldis á mannlíf og byggðaþróun eru orðin greinileg. Skýr merki eru um fjölgun íbúa þar sem fiskeldi er stundað; svæðum sem hafa glímt við fólksfækkun árum saman. Fjöldi starfa verður til í fiskeldi og einnig mörg óbein störf. Margir virðast þó draga í efa að fiskeldi skilji nokkuð eftir sig hér á landi eða hafi raunverulega efnahagslega þýðingu fyrir land og þjóð. Það er rangt. Hagstærðir tala sínu máli!
Efnahagsástandið á undanförnum misserum ætti að endurspegla vel hversu mikilvægt það er að útflutningur sé fjölbreyttur, ekki síst fyrir lítil opin hagkerfi eins og það íslenska. Því fleiri sem stoðir útflutnings eru, því minni verða áhrifin á hagkerfið, og þar með á hagsæld þjóðarinnar, þegar í bakseglin slær hjá einstaka útflutningsgreinum. Samhliða auknu fiskeldi og framleiðslu íslenskra eldisfyrirtækja hefur útflutningur aukist og viðskiptalöndum fjölgað. Langstærsti hluti af framleiðslu eldisfyrirtækja er seldur á mörkuðum erlendis. Eldisafurðir fyrir rúma 36 milljarða króna voru fluttar út í fyrra, til á fimmta tug landa. Verðmætin hafa aldrei verið meiri eða löndin fleiri. Fyrir áratugi voru löndin 25 og útflutningsverðmæti rétt rúmir 4 milljarðar króna, reiknað á föstu gengi ársins 2021. Að sama skapi hefur hlutur eldisafurða farið vaxandi í útflutningstekjum þjóðarbúsins. Sem hlutfall af verðmæti vöruútflutnings voru eldisafurðir um 5% í fyrra og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. Áhrif fiskeldis eru þó vissulega ekki einungis bundin við gjaldeyrisöflun eða útflutningstölur einu saman, þau eru vitaskuld mun meiri en svo.
Flestar efasemdaraddir um efnahagslega þýðingu fiskeldis fyrir land og þjóð má líklega rekja til þess að ákveðin eldisfyrirtæki eru í meirihlutaeigu erlendra aðila. Hér ber að hafa í huga að það eitt og sér er þó jákvætt, því erlend fjárfesting getur átt þátt í að dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri atvinnuuppbyggingu. Að íslensku fiskeldi hafa jafnframt komið fagaðilar sem hafa ekki einungis sett fjármagn í uppbyggingu heldur einnig miðlað af reynslu sinni og þekkingu til uppbyggingar í greininni. Það er vitaskuld svo að sú mikla aukning sem orðið hefur í framleiðslu og útflutningi í fiskeldi kemur ekki af sjálfum sér, hún krefst verulegrar fjárfestingar og þar hefur fjármagn erlendis frá komið sér afar vel. Eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan hefur fjárfesting í fiskeldi verið veruleg á undanförnum árum og í raun hefur hún aldrei áður verið meiri.
Samfara auknum umsvifum fiskeldis hér á landi hefur orðið mikil fjölgun á störfum í greininni. Samkvæmt tölum Hagstofunnar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur fengu að jafnaði 600 einstaklingar greidd laun frá fiskeldi í hverjum mánuði á árinu 2021. Það eru um 14% fleiri en fengu greidd laun á árinu 2020 en rúmlega 21% fleiri sé tekið mið af árinu 2019. Til samanburðar má nefna að launafólki alls í hagkerfinu fjölgaði um rétt rúmt 1% á milli ára í fyrra og sé tekið mið af árinu 2019 hafði launafólki fækkað um rúm 3%. Í raun er það svo að af öllum atvinnugreinum hér á landi hefur hlutfallsleg fjölgun launþega hvergi verið meiri en í fiskeldi undanfarin ár og er hún ein fárra atvinnugreina sem hefur verið í vexti frá því COVID-19 faraldurinn skall á. Fjölgun starfa er þó vitaskuld ekki bundin við síðustu tvö ár enda hefur greinin verið í stöðugum vexti yfir mun lengra tímabil eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan.
Hið sama er uppi á teningnum með staðgreiðsluskylda launasummu, það er samanlagðar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur alls launafólks. Þannig hefur launasumman í fiskeldi aukist um 29% á föstu verðlagi frá árinu 2019 á sama tíma og hún hefur staðið í stað sé tekið mið af öllum atvinnugreinum samanlagt. Á myndinni hér fyrir neðan hefur staðgreiðsluskyldu launasummunni verið deilt niður á fjölda einstaklinga sem fær launagreiðslur í fiskeldi. Til samanburðar má sjá þróunina í hagkerfinu alls en hér ber að halda til haga að ekki er tekið tillit til vinnumagns að baki. Hvað sem því líður má sjá að staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi á mann hafa verið nokkuð hærri að jafnaði en í hagkerfinu alls frá árinu 2014 en fyrir þann tíma var þessu öfugt farið. Hefur munurinn jafnframt orðið meiri eftir því sem lengra hefur liðið á tímabilið.
Af ofangreindu er ljóst að aukin umsvif í fiskeldi leiða til fjölgunar starfa og þar með til aukinna atvinnutekna í hagkerfinu, auk þess að styrkja gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Áhrifin eru þó öllu meiri í efnahagslegu tilliti. Fiskeldi er grunnatvinnuvegur sem þýðir að greinin hefur meiri efnahagslega þýðingu en umfang hennar, eitt og sér, gefur til kynna. Þannig eru aðrir atvinnuvegir háðir starfsemi fiskeldisfyrirtækja en þau ekki eins háð starfsemi annarra atvinnuvega. Þessi afleiddu eða óbeinu áhrif greinarinnar hafa komið vel fram í ákveðnum landshlutum þar sem fiskeldi er hvað umsvifamest, eins og á Vestfjörðum og á Austurlandi. Þar hefur atvinnulíf orðið fjölbreyttara, fólki fjölgað og aukið líf færst í fasteignamarkaðinn svo fátt eitt sé nefnt. Þetta má rekja beint til aukinna umsvifa starfseminnar sjálfrar og óbeint til afleiddra áhrifa sem eldið hefur á aðrar atvinnugreinar.
Þó að efasemdaraddir um áhrif fiskeldis í efnahagslegu samhengi heyrist enn eru flestir orðnir meðvitaðir um jákvæð áhrif fiskeldis á íslenskt efnahagslíf. Nærtækt er að nefna að á undanförnum misserum hefur varla verið gefin út efnahagsspá án þess að minnst sé á fiskeldi, hvort sem það er í samhengi útflutnings eða atvinnuvegafjárfestinga. Það kemur ekki síst til vegna áforma sem uppi eru um enn frekari uppbyggingu á komandi árum, bæði á landi og í sjó. Aukningin undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið drifin áfram af laxeldi í sjó á Vestfjörðum og Austfjörðum. Framleiðsla á landi hefur verið margfalt minni en í sjókvíum en horfur eru á verulegri aukningu í landeldi næsta áratuginn, þá einkum á suðvesturhorni landsins. Þegar öllu er á botninn hvolft ætti af þessu að vera ljóst að fiskeldi hefur verið kærkomin búbót fyrir íslenskt efnahagslíf á undanförnum árum og hefur nú þegar afar mikla þýðingu í efnahagslegu tilliti fyrir einstaka landshluta.
Atvinnulíf á Íslandi hefur í gegnum aldirnar verið frekar einhæft. En á síðari tímum hafa landsmenn leitað leiða til að skjóta frekari stoðum undir efnahagslega hagsæld lands og þjóðar. Ýmislegt hefur gengið brösuglega, annað ekki. Þegar eitthvað hefur skotið upp kollinum tekst oftar en ekki að deila um það, jafnvel svo árum skipti. Og viðkvæðið hefur þá verið: „Er ekki hægt að gera eitthvað annað?“ Svarið er að sjálfsögðu jú, það er hægt. Það er hægt að gera eitthvað annað, en þetta annað er kannski ekki alveg klárt og engin veit í raun hvað í því felst.
Nefna má nokkur dæmi um atvinnutækifæri sem þráttað hefur verið um og enn er þráttað um. Til dæmis framleiðsla á iðnaðarvörum til útflutnings, orkuframleiðslu eða fiskiprótein. Farið er úr vatnsfallsvirkjunum í jarðvarmavirkjanir og svo vindmyllur, en hvað með frekar eitthvað annað? Ferðamenn flykkjast í nýjasta Instagram gljúfrið, þar sem áður fyrr hægt var að setjast í laut og borða nestið með fjölskyldunni, án truflunar. Þarf ekki að gera bara eitthvað annað en að fljúga hingað með alla þessa ferðamenn? Um leið og „eitthvað annað“ birtist er oft stutt í að það verði ómögulegt.
Nú ber svo við að á síðustu árum hefur „eitthvað annað“ byggst upp með tilheyrandi jákvæðum áhrifum víða um land, nýjum störfum og uppbyggingu. Hér er að sjálfsögðu átt við fiskeldi.
Fiskeldi er nú þegar orðin mjög umsvifamikil útflutningsgrein í „eitthvað annað“ geiranum. Útflutningur á eldisfiski nam 36 milljörðum króna í fyrra, eða um 20% af vöruútflutningi án sjávarútvegs og álframleiðslu. Samkvæmt spá Íslandsbanka stefnir í að útflutningstekjur af fiskeldi gætu orðið í kringum 45 milljarðar króna í ár og hátt í 60 milljarðar árið 2024.
Greinin framleiðir hágæða prótein til manneldis með lágu kolefnisspori í umhverfisvænu og sjálfbæru eldi í hreinum sjó við strendur landsins og einnig á landi. Engin sýklalyf eru notuð og enginn erfðabreyttur fiskur er í íslensku fiskeldi. Ekki má gleyma áhrifum í nærsamfélaginu en þau eru afar jákvæð og óumdeild. Nú þegar starfa yfir 620 manns við fiskeldi. Uppbygging greinarinnar hérlendis er í miklum vexti og bleikjueldi Íslendinga er það stærsta í heimi.
Lýkur leitinni að „einhverju öðru“ einhvern tímann? Nei, henni lýkur aldrei. Það er saga mannsandans, hin eilífa leit. Og um leið og eitthvað finnst fara menn af stað aftur. Þau eru hins vegar til sem leita leitarinnar vegna og finnst allt ómögulegt sem aðrir finna.
Það er þó rétt að hafa í huga að það er sama hvað menn finna og reyna að gera sér mat úr, ef enginn hefur áhuga á að því sem finnst þá er einboðið að leita lengur. Ákvörðun um að gera verðmæti úr einhverju er eitt, hvort það tekst veltur algerlega á því hvort áhugi sé á viðkomandi afurð. Það er með öðrum orðum markaðurinn sem í raun öllu ræður. Svo eru peningar afl þeirra hluta sem gera skal. Ef engin vill fjárfesta í „einhverju öðru“ verður eitthvað annað að engu.
Fjöldi fólks í heiminum nálgast nú átta milljarða. Alla langar í gott og hollt prótein. Eldisfiskur fullnægir þeirri þörf og það er gríðarleg spurn eftir próteini. Þess vegna er fiskeldi gott „eitthvað annað“ og verður það áfram. Tækifæri verða til við eftirspurn og þau ber að grípa þegar þau gefast. Öllu lakara er að láta þau líða hjá á meðan verið er að rífast um hvort það finnist nú ekki eitthvað annað. Nema fólki finnist allar nýjungar, hversu vel sem þær styrkja lífskjör okkar og samfélag til framtíðar, alveg ómögulegar. Það er að minnsta kosti vandséð hvernig hægt væri að finna betra „eitthvað annað“, en fiskeldi.