myndiun.JPG

Efnahagsmál

Sjaldan á vísan að róa í sjávarútvegi

Rekstur í sjávarútvegi er í eðli sínu afar sveiflukenndur og háður mörgum óvissuþáttum. Allt frá mati á stærð fiskistofna og vísindalegri veiðiráðgjöf, sem er grundvöllur að ákvörðun stjórnvalda um leyfðan heildarafla hvers árs, til ástands á mörkuðum erlendis, sem markast bæði af efnahagslegum og pólitískum þáttum. Aðstæður eru því síbreytilegar og sjaldgæft að eitt ár endurspegli annað í íslenskum sjávarútvegi.

Það er því er sjaldan á vísan að róa. Ástandið sem COVID-19 faraldurinn og baráttan við hann hefur skapað um heim allan auðveldar ekki sjávarútvegsfyrirtækjum róðurinn. Óvissan varð meiri, aðstæður síbreytilegar og mismunandi á milli landa. Ástandið á mörkuðum fyrir sjávarafurðir tók þó almennt að glæðast eftir því sem leið á árið 2021 á sama tíma og stjórnvöld víða um heim drógu úr sóttvarnaraðgerðum. Á móti komu umtalsverðar verðhækkanir eins og á olíu og flutningum og jukust þær eftir því sem leið á árið samhliða aukinni eftirspurn í heimshagkerfinu. Heilt yfir má þó segja að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum hafi tekist vel upp í erfiðu árferði. Enn og aftur kemur á daginn hversu sveigjanlegt íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið er. Í þessu ástandi hefur órofin virðiskeðja, allt frá skipulagi veiða til lokasölu, skipt sköpum. Kerfið eykur sveigjanleika fyrirtækja til að bregðast við síbreytilegum aðstæðum. Það skiptir miklu máli ef hámarka á verðmætin og tekjur þjóðarbúsins af sjávarauðlindinni. Mikilvægi þess ætti að blasa við öllum á krefjandi tímum.

Útflutningsverðmæti sjaldan verið meira

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam rúmlega 296 milljörðum króna á árinu 2021. Það er rúmlega 7% aukning í krónum talið frá fyrra ári. Vegna 2,5% hækkunar á gengi krónunnar á milli ára var aukningin aðeins meiri í erlendri mynt eða 10%. Á þann kvarða hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi ekki verið meira á einu ári á þessari öld. Ef verðmætin eru leiðrétt fyrir verðbólgu erlendis, og þá á raunvirði, er árið 2021 í öðru sæti á eftir árinu 2018. Árið 2018 var reyndar sérstakt sökum þess að óveiddar veiðiheimildir frá fyrra ári voru óvenjumiklar vegna sjómannaverkfalls í ársbyrjun 2017. Í heildina er óhætt að segja að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum hafi tekist vel upp á árinu 2021. Í þeim efnum er ekkert sjálfgefið, sér í lagi þegar markaðir víða um heim eru síbreytilegir vegna sóttvarnaraðgerða og miklir flöskuhálsar eru í flutningum á milli landa. Það er nefnilega svo að það er ekki nóg að veiða og vinna fiskinn, það þarf að selja og koma afurðum til kaupenda víða um heim á umsömdum tíma. Þar þurfa allir hlekkirnir í sjávarútvegi að smella til þess að ná árangri.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða

Í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2021*

*Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans, viðskiptavog þröng.
Skýring: Tölum um útflutning sjávarafurða á árunum 2020 og 2021 var breytt í ársskýrslunni í byrjun júní í samræmi við leiðréttingu Hagstofunnar á gögnum.
Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands

Lítill fiskur vegur þungt

Það er engum blöðum um það að fletta að ofangreinda aukningu í útflutningsverðmætum sjávarafurða á árinu 2021 má að langstærstum hluta rekja til loðnu. Þar er jafnframt óhætt að segja að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum hafi heldur betur tekist vel upp. Ástandið á mörkuðum með loðnuafurðir var vissulega sérstakt á árinu. Það helgaðist af miklu leyti af loðnubresti árin tvö þar á undan og skorti sem hann leiddi til á framboði á loðnuafurðum. Jafnframt var sá loðnukvóti sem gefinn var út í lægri kantinum miðað við önnur ár. Þessir þættir hafa veruleg áhrif á afurðaverð. Kvóti sem íslensku fyrirtækjunum var úthlutað var allur nýttur á mánaðartímabili frá miðjum febrúar. Því var mun meira af hrognafullri loðnu sem þýðir, að öðru óbreyttu, verðmætari afli. Í öllu þessu ferli þarf hins vegar mikla útsjónarsemi hjá fyrirtækjunum sjálfum til þess að hámarka megi verðmætin. Uppsjávarfyrirtæki hafa jafnframt staðið í verulegum fjárfestingum á undanförnum árum. Mikil endurnýjun hefur orðið á uppsjávarflotanum og veruleg fjárfesting hefur orðið í hátæknibúnaði í fiskvinnslum. Það ætti einnig að skila sér í hærra afurðaverði sem og bættri nýtingu. Í raun var útflutningsverðmæti loðnu langtum meira en það hefur nokkru sinni verið áður fyrir hvert kíló sem íslenski flotinn hefur dregið úr sjó.

Alls námu útflutningsverðmæti loðnuafurða rúmlega 24 milljörðum króna á árinu 2021. Þar af nam verðmæti útfluttra loðnuhrogna 14 milljörðum króna og hafa þau aldrei verið meiri á einu ári. Útflutningur á heilfrystri loðnu í landi skilaði svo um þriðjungi útflutningstekna, eða tæpum 8 milljörðum króna, sem einnig er met. Samsetning loðnuafurða í útflutningi var því talsvert önnur en fyrri ár þar sem mun meira af aflanum var nýtt til manneldis eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

Útflutningsverðmæti loðnu og landaður afli*

Í milljörðum króna á föstu gengi** ársins 2021 og í þúsundum tonna

*Landaður afli íslenskra og erlendra skipa. Miðað er við fiskveiðiár. **Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans, viðskiptavog þröng.
Skýring: Tölum um útflutning loðnuafurða á árinu 2021 var breytt í ársskýrslunni í byrjun júní í samræmi við leiðréttingu Hagstofunnar á gögnum.
Heimild: Fiskistofa, Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands

Þróunin misjöfn eftir tegundum

Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða nam um 62 milljörðum króna á árinu 2021 og jókst um 24% í erlendri mynt. Miðað við ofangreint gefur augaleið að aukninguna má nánast alfarið rekja til loðnu. Aðrar helstu tegundir uppsjávarfiska eru síld, kolmunni og makríll. Þar var þróunin æði misjöfn.

Útflutningsverðmæti síldarafurða nam rúmlega 15 milljörðum króna á árinu 2021 og er nánast óbreytt frá fyrra ári. Á sama tíma dróst magn útfluttra síldarafurða saman um rúmlega 7%. Var því verð hærra fyrir hvert útflutt kíló sem endurspeglar hvort tveggja hækkun á verði síldarafurða og að meira var unnið til manneldis en árið á undan. Á hinn bóginn var verulegur samdráttur í útflutningsverðmæti kolmunna sem jafnframt var langt umfram þann samdrátt sem var í útfluttu magni, eða 37% á móti 28%. Fékkst því mun lægra verð fyrir hvert útflutt kíló. Útflutningsverðmæti kolmunna nam tæpum 7 milljörðum króna og hefur það ekki verið lægra frá árinu 2016. Alls nam útflutningsverðmæti makrílafurða rúmlega 15 milljörðum króna sem er það lægsta sem sést hefur frá árinu 2017. Samdráttur í verðmætum á milli ára var 28% en magni rúm 25%. Hér ber þó að nefna að útflutningstölur fyrir tiltekið ár endurspegla ekki að fullu það sem flutt var út á árinu. Hluti af afurðunum kann að hafa verið fluttur út fyrir einhverju síðan en tafir geta verið á gögnum. Slík töf er algengari vegna gagna um uppsjávarafurðir en aðrar sjávarafurðir.

Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða eftir tegundum

Í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2021*

*Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans, viðskiptavog þröng.
Skýring: Tölum um útflutning uppsjávarafurða á árunum 2020 og 2021 var breytt í ársskýrslunni í byrjun júní í samræmi við leiðréttingu Hagstofunnar á gögnum.
Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands

Asíumarkaður aldrei fyrirferðameiri

Mun meiri sveiflur eru í útflutningi á uppsjávarafurðum en í útflutningi annarra sjávarafurða. Þær helgast af aflabrögðum á milli ára í einstaka tegundum. Það hefur mikil áhrif á viðskipti einstakra landa eða svæða. Þar sem veiðar á loðnu voru leyfðar á ný á árinu, og aflinn nær allur unninn til manneldis, var Asíumarkaður allsráðandi í viðskiptum með loðnuafurðir. Aftur á móti komst Noregur varla á blað sem hefur verið stærsta viðskiptaland Íslendinga með loðnuafurðir. Það kemur heim og saman við hversu lítið fór í bræðslu en Norðmenn eru stærstu kaupendur á fiskimjöli og lýsi enda ein stærsta fiskeldisþjóð heims.

Alls voru fluttar út uppsjávarafurðir fyrir tæpa 17 milljarða króna til Asíu á árinu sem er hátt í fimmföldun á milli ára á föstu gengi. Vægi Asíumarkaðar í heildarverðmætum uppsjávarafurða fór úr rúmum 7% í rúm 27% á milli ára. Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða til Noregs námu 9 milljörðum króna sem var lækkun um tæp 27% á milli ára. Vægi Norðmanna í heildarverðmæti uppsjávarafurða fór úr rúmum 24% í tæp 15% á milli ára. Samdráttinn má einnig rekja til þess að meira af síld var unnið til manneldis auk þess sem talsverðar verðlækkanir voru á kolmunnaafurðum. Að endingu má nefna markaði í Austur-Evrópu en þangað eru aðallega fluttar frosnar síldar-, makríl- og loðnuafurðir. Alls voru fluttar út uppsjávarafurðir fyrir rúma 19 milljarða króna til Austur-Evrópu sem er 9% samdráttur á milli ára á föstu gengi. Vægi Austur-Evrópumarkaðar skrapp því talsvert saman á milli ára, eða úr 42% í 31%.

Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða eftir svæðum

Í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2021*

*Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans, viðskiptavog þröng.
Skýring: Tölum um útflutning uppsjávarafurða á árunum 2020 og 2021 var breytt í ársskýrslunni í byrjun júní í samræmi við leiðréttingu Hagstofunnar á gögnum.
Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands

Markaðir taka við sér

Ástandið á mörkuðum með botnfiskafurðir tók almennt að glæðast eftir því sem leið á árið 2021 á sama tíma og stjórnvöld víða um heim drógu úr umfangi sóttvarnaraðgerða. Þróunin var þó æði misjöfn eftir einstaka tegundum og afurðaflokkum botnfiska enda eru viðskiptalöndin mörg og ástandið á mörkuðum þar með mismunandi. Þetta kemur ágætlega fram í verðvísitölu botnfiskafurða sem Hagstofan birtir mánaðarlega. Í janúar 2021 sýndi tólf mánaða taktur verðvísitölunnar rúmlega 8% lækkun á verði botnfiskafurða í erlendri mynt en í desember var hann kominn í tæplega 13% hækkun. Var verðvísitala botnfiskafurða í árslok jafnframt orðin talsvert hærri en hún var fyrir COVID-19. Breytingin var áberandi mest á verði sjófrystra afurða sem í ársbyrjun höfðu lækkað um 12% á milli ára í erlendri mynt en í árslok var árstakturinn komin í rúm 38%. Að jafnaði hækkuðu sjófrystar afurðir í verði um tæp 7% á milli ára í erlendri mynt. Eins var ágætis hækkun á verði ferskra afurða á milli ára, eða rúm 4%. Aðrir vinnsluflokkar lækkuðu í verði á milli ára en bæði landfrystar og saltaðar afurðir lækkuðu um 5% og skreið um 11%. Verðvísitala botnfiskafurða í heild hækkaði um 2% á milli ára í erlendri mynt.

Verðvísitala botnfiskafurða í erlendri mynt

Vísitala þar sem árið 2011=100

*Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans, viðskiptavog þröng.
Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands

Ástandið mismunandi eftir tegundum

Í heild nam útflutningsverðmæti botn- og flatfiskafurða 213 milljörðum króna á árinu 2021. Það er tæplega 7% aukning í erlendri mynt frá árinu á undan. Þær fimm tegundir botn- og flatfiska sem eru fyrirferðarmestar í útflutningi sjávarafurða eru þorskur, ýsa, ufsi, karfi og grálúða. Þar sem þorskurinn er svo fyrirferðarmikill munaði mest um tæpa 3% aukningu sem varð á útflutningsverðmæti þorskafurða á milli ára í erlendri mynt. Mun meiri aukning var þó í útflutningsverðmæti á afurðum ýsu (tæp 13%) og ufsa (rúm 20%). Í heild virðast markaðir fyrir þorsk, ýsu og ufsa hafa tekið ágætlega við sér á árinu og var verðmætaaukningin talsvert umfram þá aukningu sem var á útfluttu magni. Á hinn bóginn virðist markaðurinn hafa verið talsvert þyngri fyrir karfa og grálúðu. Útflutningsverðmæti karfa jókst um tæp 9% á milli ára á sama tíma og magnið jókst um tæp 16%. Útflutningsverðmæti grálúðu dróst saman um 1% á milli ára á sama tíma og útflutt magn dróst saman um rúm 9%. Virðist því verðlækkun almennt hafa orðið á bæði afurðum karfa og grálúðu á árinu.

Útflutningsverðmæti botn- og flatfiskafurða eftir helstu tegundum

Í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2021*

*Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans, viðskiptavog þröng.
Skýring: Tölum um útflutning botn- og flatfiskafurða á árunum 2020 og 2021 var breytt í ársskýrslunni í byrjun júní í samræmi við leiðréttingu Hagstofunnar á gögnum.
Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands

Frakkland komið í yfirburðastöðu

Ein stærsta breytingin á þessari öld í vinnslu á sjávarafurðum er aukin áhersla sjávarútvegsfyrirtækja á ferskfiskvinnslu. Markmiðið er að auka verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi og mæta aukinni spurn eftir ferskum hágæðaafurðum en hún hefur vaxið víða um heim. Þar hefur mikil fjárfesting fyrirtækjanna á undanförnum árum í hátæknibúnaði og nýsköpun, ásamt sölu og markaðssetningu, skipt sköpum. Sú áherslubreyting endurspeglast vel í viðskiptalöndum með botnfiskafurðir. Þar ber helst til tíðinda mikil aukning á útflutningi til Frakklands. Frakkland er jafnframt komið með talsverða yfirburðastöðu gagnvart Bretlandi sem lengst af hefur verið stærsta viðskiptaland Íslendinga með botnfiskafurðir. Botnfiskafurðir fyrir um 41 milljarð króna voru fluttar út til Frakklands í fyrra, sem er met. Langstærsti hluti afurðanna voru ferskar, eða um 82%. Eins hefur útflutningur á botnfiskafurðum til Bandaríkjanna aukist töluvert undanfarinn áratug sem einnig má rekja til áherslu sjávarútvegsfyrirtækja á ferskfiskvinnslu. Á undanförnum árum hafa Bandaríkin verið þriðja stærsta viðskiptaland Íslendinga með botnfiskafurðir. Bretland er núna annar stærsti markaður Íslendinga fyrir botnfiskafurðir en þangað er mest flutt út af frystum afurðum. Spánn er svo númer fjögur en þar er að finna einn mikilvægasta markað Íslendinga fyrir saltaðar afurðir.

Verðmæti útfluttra botnfiskafurða eftir vinnslu til 10 stærstu viðskiptalanda

Í milljörðum króna á föstu gengi ársins 2021

*Miðað gjaldmiðla landanna, það er EUR, USD, GBP og CAD. Tekið mið af USD fyrir Nígeríu
Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands

Bretland trónir þó enn á toppnum

Þegar litið er á viðskiptalönd Íslendinga og allra sjávarafurða náði Bretland að halda toppsætinu líkt og það hefur gert samfellt í rúma þrjá áratugi. Forskot sem Bretar hafa á Frakka liggur aðallega í rækju en þar er Bretland stærsta viðskiptaland Íslendinga. Munurinn á milli þessara tveggja stærstu viðskiptalanda Íslendinga með sjávarafurðir hefur þó aldrei verið minni en í fyrra. Var hlutdeild Bretlands í útflutningsverðmæti sjávarafurða rúm 15% alls á árinu en Frakklands rúm 14%. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá 12 stærstu viðskiptalönd Íslendinga með sjávarafurðir á árinu flokkað niður á tegundahópa. Sjá má að stærstu viðskiptalöndin með þorsk og aðrar botnfiskafurðir raða sér í fremstu röð, enda er útflutningsverðmæti botnfiskafurða mun meira en annarra tegundahópa. Miðað við þann stóra loðnukvóta sem úthlutað var á yfirstandandi fiskveiðiári er nokkuð fyrirséð að röðun landanna muni taka talsverðum breytingum í ár frá árinu 2021. Enda er það sjaldan svo að eitt ár endurspegli annað í íslenskum sjávarútvegi, hvort sem litið er á viðskiptalönd, tegundir eða afurðavinnslu.

Stærstu viðskiptalönd með sjávarafurðir á árinu 2021

Í milljörðum króna

* Útflutningur til Póllands reyndist meiri en áður var talið við leiðréttingu Hagstofunnar á gögnum um útflutning sjávarafurða á árinu 2021. Gerð var breyting á myndinni í ársskýrslunni í byrjun júní í samræmi við það.
Heimild: Hagstofa Íslands

Meira jafnvægi á gjaldeyrismarkaði

Mun meira jafnvægi komst á gjaldeyrismarkaðinn á árinu 2021 eftir ansi stormasamt ár í kjölfar COVID-19. Vissulega gætti áhrifa COVID-19 á gjaldeyrismarkaði en þau voru þó öllu minni en árið 2020. Reglubundinni gjaldeyrissölu sem Seðlabankinn hóf haustið 2020 var hætt í lok apríl þegar betra jafnvægi náðist á gjaldeyrismarkaði. Á fyrri árshelmingi styrktist gengi krónunnar nær linnulaust og náði í byrjun júní sínu hæsta gildi frá því fyrir COVID-19. Þá fór saman gjaldeyrisinnflæði frá ferðaþjónustu og fjármagnsinnflæði vegna kaupa erlendra aðila í hlutafjárútboði Íslandsbanka. Þegar leið á sumarið tók krónan að veikjast á ný samhliða fjármagnsútflæði og aukinni óvissu um ferðaþjónustu og verðbólgu. Jafnframt jókst óvissa í aðdraganda alþingiskosninga í september. Aukinn loðnukvóti sem tilkynnt var um í byrjun október jók bjartsýni um útflutningshorfur en á móti kom viðvarandi óvissa um þróun farsóttarinnar og verðbólguhorfur. Í nóvember tók krónan að styrkjast á ný sem má að hluta til rekja til aukinnar framvirkrar sölu á gjaldeyri. Á árinu 2021 mátti einmitt greina aukinn áhuga viðskiptavina bankanna á að verja sig fyrir styrkingu krónunnar. Það má svo aftur rekja til nýrra reglna Seðlabankans sem höfðu tekið gildi í lok júní og heimiluðu afleiðuviðskipti með krónuna án tillits til tilgangs þeirra.

Mun meira jafnvægi var í gjaldeyrisflæði á seinni hluta árs þrátt fyrir ofangreindar sveiflur á gengi krónunnar. Á síðustu tveimur mánuðum ársins hélt Seðlabankinn sig jafnframt alfarið frá gjaldeyrismarkaði eftir að hafa hægt og bítandi dregið úr inngripum. Flökt í gengi krónunnar minnkaði verulega frá fyrra ári en munur á hæsta og lægsta gildi gengisvísitölunnar var um 7% á árinu samanborið við 19% árið 2020. Það eitt og sér er jákvætt enda er það almennt svo að minni sveiflur á gengi krónunnar hafa jákvæð áhrif á rekstur útflutningsfyrirtækja. Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum var að jafnaði um 2,5% sterkara á árinu 2021 en árið 2020. Vitaskuld var þróunin misjöfn eftir gjaldmiðlum. Til að mynda hækkaði gengi krónunnar um rúm 6% gagnvart Bandaríkjadal og tæp 3% gagnvart evru. Á hinn bóginn lækkaði gengi krónunnar um tæpt 1% gagnvart breska pundinu og um rúm 2% gagnvart norsku krónunni.

Gengisvísitala krónunnar

Viðskiptavog þröng

Heimild: Seðlabanki Íslands

Raungengið rýrir samkeppnisstöðuna

Raungengi íslensku krónunnar á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar hækkaði um rúm 6% á milli ára. Það var í fyrsta sinn frá árinu 2017 sem þróunin var í þessa átt. Raungengi á þennan mælikvarða endurspeglar hvernig launakostnaður á Íslandi þróast í samanburði við launakostnað í helstu viðskiptalöndum, mælt í sömu mynt. Samkeppnisstaða innlendra útflutningsgreina versnaði þar með þó nokkuð á milli ára. Hækkun raungengis var bæði vegna 2,5% hækkunar á nafngengi krónunnar og 3,6% hækkunar á launakostnaði hér á landi umfram launakostnað í helstu viðskiptalöndum. Það að launakostnaður sé að hækka meira hér á landi en í helstu viðskiptalöndum er gömul saga og ný. Á Íslandi hefur það verið regla fremur en undantekning að laun hækki langt umfram laun í okkar helstu samkeppnislöndum og jafnframt umfram það sem samrýmist aukinni framleiðni í landinu. Að öðru óbreyttu dregur þessi staðreynd augljóslega úr samkeppnishæfni útflutningsgreina hér á landi.

Raungengi miðað við hlutfallslegan launakostnað

Breyting á milli ára (%)

Heimild: Seðlabanki Íslands

Aukin framleiðni – hærri laun

Launakostnaður er stærsti kostnaðarliður í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Launakerfi sjómanna byggist á hlutaskiptum aflaverðmætis á milli sjómanna og útgerða og haldast laun þeirra þar með í hendur við tekjur sjávarútvegsfyrirtækja. Hið sama á ekki við um laun í landi sem hafa vegið rúmlega 40% af launakostnaði í sjávarútvegi á undanförnum árum. Þar grundvallast laun almennt á kjarasamningum á almennum vinnumarkaði þar sem launahækkanir eru oftast langt umfram það sem á sér stað í samkeppnislöndum eins og áður segir. Við bætist að Ísland er hálaunaland sem þýðir að launakostnaður fyrirtækja sem hér starfa er almennt hærri en í flestum öðrum ríkjum heims. Það gefur augaleið að útflutningsgreinar eins og sjávarútvegur eiga á brattann að sækja í löndum þar sem launakostnaður er hár því þau verða að geta boðið samkeppnishæf laun til að fá fólk til starfa. Það er því tvennt í stöðunni; að hagræða með því að flytja störf úr landi eða að auka tæknivæðingu. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, ólíkt til dæmis Norðmönnum, hafa valið síðari leiðina. Þau hafa ráðist í verulegar fjárfestingar í hátæknibúnaði í fiskvinnslu til að tryggja samkeppnishæfni fiskvinnslu. Með þessu móti helst stærsti hluti framleiðslunnar og verðmætasköpunar hér á landi og stendur íslenskur sjávarútvegur jafnframt vel að vígi í samanburði við önnur lönd hvað varðar framleiðni í fiskvinnslu.

Aukin tæknivæðing í vinnslum hefur vissulega leitt til fækkunar á ákveðnum störfum en samtímis hefur fjárhagslegt svigrúm greinarinnar aukist til þess að borga hærri laun. Það sést í gögnum Hagstofunnar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur. Þannig hafa launagreiðslur á hvern launamann í fiskvinnslu hækkað langt umfram launagreiðslur á mann að jafnaði í öðrum atvinnugreinum undanfarinn áratug eða svo. Launagreiðslur á mann í fiskvinnslu voru um 80% af landsmeðaltali á árinu 2008 en á árinu 2021 fóru þær í fyrsta sinn yfir meðaltalið og voru 2% hærri. Hér ber þó að halda til haga að gögn Hagstofunnar hafa ýmsa vankanta sem hafa þarf í huga við samanburð. Þau taka til að mynda ekki tillit til vinnustunda sem geta verið mismargar á milli atvinnugreina. Það er þó vitaskuld fleira sem hefur áhrif á launagreiðslur á milli atvinnugreina, eins og menntunarstig og hlutdeild faglærðra eða sérhæfðra starfa innan greinanna.

Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur á mann* í fiskvinnslu og hagkerfinu alls

Í þúsundum króna á föstu verðlagi ársins 2021**

* Ekki er tekið til vinnustunda eða hefðbundinna launatengdra gjalda ** Miðað við vísitölu neysluverðs
Heimild: Hagstofa Íslands

Umtalsverð hækkun á olíuverði

Miklar hækkanir hafa verið á heimsmarkaðsverði á olíu á undanförnum misserum. Eftir snarpa lækkun í mars og apríl á árinu 2020 þegar farsóttin gerði vart við sig hefur heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkað nær linnulaust. Hækkunina má rekja til þess að spurn eftir olíu hefur aukist hratt samhliða vaxandi efnahagsumsvifum á sama tíma og hægar hefur gengið að auka framleiðsluna. Truflanir hafa verið á framleiðslu í Bandaríkjunum vegna fellibylja og hægar hefur gengið að létta á framleiðslutakmörkunum hjá helstu olíuframleiðsluríkjum. Auk þess hefur veruleg hækkun á verði annarra orkugjafa vegna framboðstakmarkana aukið spurn eftir olíu. Því hefur dregið verulega á olíubirgðir sem voru komnar undir meðaltal undanfarinna fimm ára. Meðalverð á tunnu af Brent hráolíu á árinu 2021 var um 64% hærra en á árinu 2020. Hæst var verðið í október þegar tunnan var á tæpa 84 dali en svo hátt hefur það ekki farið frá því í október árið 2014.

Hækkun á heimsmarksverði á olíu hafði vissulega áhrif hér á landi þó að hækkunin væri eðlilega langtum minni. Verð á skipagasolíu var að jafnaði ríflega 15% hærra á árinu 2021 en árið á undan. Olíukostnaður er annar stærsti kostnaðarliður í rekstri útgerða á eftir launum og því ljóst að olíuverðshækkun hefur neikvæð áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Hækkun á heimsmarkaðsverði kemur vissulega einnig við rekstrarskilyrði samkeppnisaðila og hefur því ekki áhrif í sama mæli á samkeppnihæfni íslenskra fyrirtækja og launakostnaður. Hið sama gildir þó ekki um álagningu af hendi hins opinbera, samanber kolefnisgjald hér á landi. Það hækkaði um tæp 3% á milli áranna 2020 og 2021 og var komið í 11,75 krónur á lítra á skipagasolíu. Gjaldið hefur ríflega fjórfaldast frá því að það var upphaflega lagt á. Fjárhæð gjaldsins á árinu nam að jafnaði um 9% af verði hvers lítra, án virðisaukaskatts. Það er nokkuð ljóst að þessi skattheimta kemur niður á samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja því í mörgum löndum, ef ekki flestum, er flotinn undanþeginn eldsneytissköttum.

Verð á skipagasolíu og alþjóðlegt olíuverð

Meðalverð á mánuði í USD og ISK

Heimild: Seðlabanki Íslands og Skeljungur

Flöskuhálsar í flutningum og kostnaður eykst

Heimsfaraldurinn hefur valdið miklum erfiðleikum við vöruflutninga á milli landa og hefur flutningskostnaður margfaldast. Þetta má rekja til þess að dregið var verulega úr afkastagetu flutningskerfisins um heim allan árið 2020 bæði með fækkun skipa og minni umsvifum vegna mikillar óvissu um áhrif faraldursins á heimsbúskapinn. Samdrátturinn í heimshagkerfinu reyndist þó minni en reiknað var með og tók flutningskostnaður að hækka nokkuð skarpt í árslok 2020. Hröð aukning vörueftirspurnar í kjölfar þess að slakað var á sóttvarnaraðgerðum á árinu 2021 samhliða minni afkastagetu flutningskerfisins jók svo enn á vandann. Í mörgum mikilvægum vöruflutningahöfnum mynduðust oft langar biðraðir, afhendingartími lengdist og skortur var á gámum. Flutningatími lengdist, kostnaður hækkaði og þar með útgjöld fyrirtækjanna vegna flutninga. Þetta hafði vissulega áhrif á íslensk sjávarútvegsfyrirtæki enda er ekki nóg að veiða fiskinn og vinna, heldur þarf að koma afurðum til kaupenda víða um heim á umsömdum tíma. Vissulega var staðan mismunandi eftir afurðum og viðskiptalöndum en almennt voru tafir meiri og kostnaður hærri eftir því sem fjarlægð var meiri.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki búa það vel að íslensk skipafélög hafa á undanförnum árum lagt aukna áherslu á að þjóna mörkuðum fyrir ferskan fisk betur. Skipaleiðum hefur verið fjölgað og brottfarir miðast almennt við þarfir útflutnings á ferskum afurðum þar sem tíminn skiptir sköpum. Flutningar með flugi skipta einnig miklu máli, sér í lagi fyrir útflutning til Ameríku. Sjávarútvegur hefur orðið að reiða sig í mun meiri mæli á flutningavélar fyrir ferskfiskútflutning á tímum COVID-19 vegna áhrifa faraldursins á ferðaþjónustuna. Þó rættist nokkuð úr stöðunni eftir því sem leið á árið og slakað var á sóttvörnum og farþegaflutningar hófust á ný í einhverjum mæli. Engu að síður er kostnaður við að flytja fisk með flugi talsvert hærri en hann var fyrir COVID-19.

Alþjóðlegt flutningaverð

Verðvísitala gámaflutninga* þar sem janúar 2020=100

* Verðvísitala gámaflutninga miðast við Freightos Global Container Index
Heimild: Seðlabanki Íslands og Freightos Data

Betri afkoma - meiri tekjur fyrir ríkissjóð

Alls greiddi sjávarútvegur 7,9 milljarða króna í veiðigjald á árinu 2021 samanborið við 4,8 milljarða króna árið á undan. Fjárhæð veiðigjalds á árinu var því tæplega 3% af útflutningsverðmætum samanborið við tæp 2% árið á undan. Sem kunnugt er þá greiða sjávarútvegsfyrirtæki 33% af afkomu greinarinnar af veiðum sem áttu sér stað tveimur árum fyrr. Hærri fjárhæð veiðigjalds á árinu 2021 en 2020 má því rekja til betri afkomu í fiskveiðum á árinu 2019 en 2018. Ríflega helmingur veiðigjaldsins kom frá veiðum á þorski (54,6%). Ýsan vó næstmest (11,3%) og ufsinn kom þar á eftir (7,5%). Af uppsjávartegundum vó síldin mest (6,3%) en ekkert gjald var greitt af loðnuveiðum enda var loðnubrestur árið 2019 sem álagningin hefði að óbreyttu miðast við.

Að vanda bar veiðigjald talsvert á góma í umræðunni á hinum pólitíska vettvangi á árinu 2021 enda einn mest ræddi tekjustofn ríkissjóðs. Í þeirri umræðu mætti halda að tekjur ríkissjóðs frá sjávarútvegi komi einungis frá veiðigjaldinu einu saman. Það er vitanlega fjarri lagi enda einungis brot af því sem greinin greiðir í skatta og önnur opinber gjöld. Í umræðunni gleymist að veiðigjald, sem er auðlindaskattur, er gjald sem sjávarútvegur greiðir umfram aðrar atvinnugreinar hér á landi þrátt fyrir að mörg önnur fyrirtæki nýti sér auðlindir Íslands í rekstri sínum. Umfram allt eru álögur á íslenskan sjávarútveg heima fyrir langtum hærri en tíðkast hjá samkeppnisaðilum víða um heim. Umræðan ætti vitaskuld að beinast að þessari sérstöðu sem Íslendingar eru í þegar kemur að sjávarútvegi.

Fjárhæð veiðigjalds

Í milljörðum króna á verðlagi hvers árs og sem hlutfall af útflutningsverðmæti sjávarafurða

Heimild: Deloitte, Fiskistofa og Hagstofa Íslands

Undirstaðan skiptir sköpum

Það er alveg ljóst að samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er ekki upp á marga fiska þegar kemur að opinberri álagningu, launum og tengdum gjöldum eða flutningskostnaði. Það sem vinnur hins vegar með íslenskum sjávarútvegi er íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er einmitt kerfið sjálft sem hefur verið undirstaða þess að íslenskur sjávarútvegur hefur staðist samkeppni á sama tíma og álögur og gjöld á hann heima fyrir eru langt umfram það sem samkeppnisaðilar bera.

Markmið þess að stuðla að efnahagslegum ávinningi þjóðarbúsins með sjálfbærni að leiðarljósi eru yfirgnæfandi í íslenska kerfinu í samanburði við önnur lönd. Með sjálfbærni að leiðarljósi er ljóst að ekki verður gengið á fiskistofnana umfram það sem þeir þola samkvæmt bestu ráðgjöf vísinda hverju sinni. Þetta leiðir til þess að ekki er hægt að auka verðmætin einfaldlega með því að veiða meira. Það er gert með fjárfestingum, auknum gæðum, nýsköpun og markaðsstarfi. Það er innbyggður hvati í íslenska kerfinu til að fjárfesta enda er það lífsspursmál fyrir fyrirtækin til þess að standast samkeppni á alþjóðlegum markaði.

Þar hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hvergi slegið slöku við og hafa lagt í verulegar fjárfestingar í virðiskeðjunni sem nær allt frá skipulagi á veiðum til lokasölu. Órofin virðiskeðja tryggir fyrirtækjunum nauðsynlegan sveigjanleika í síbreytilegu umhverfi sem gegndi einmitt einu af lykilhlutverkunum í því hversu hratt greininni tókst að aðlagast að nýjum veruleika á hverjum tíma í COVID-19 ástandinu. Mikið hefur verið rætt um fjárfestingu fyrirtækjanna í veiðum og vinnslu enda hefur hún verið í sögulegum hæðum á undanförnum árum eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Í þeim tölum er hins vegar ekki tekin með sú mikla fjárfesting fyrirtækja sem orðið hefur í sölu, markaðssetningu og í dreifileiðum en stór hluti af virðisaukanum í íslenskum sjávarútvegi á sér stað utan íslenskrar lögsögu. Fjárfesting þar er því ekki síður mikilvæg enda selur fiskur sig ekki sjálfur þrátt fyrir að vera ættaður af Íslandi.

Þessi mikla fjárfesting sem orðið hefur í auðlindanýtingunni og þeirri framleiðslu sem á sér stað hér á landi hefur stóraukið framleiðni í íslenskum sjávarútvegi. Þar standa fyrirtækin jafnframt vel að vígi í samanburði við samkeppnisaðila enda er íslenskur sjávarútvegur einn sá tæknivæddasti í heimi. Það hefur skipt sköpum fyrir samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðamarkaði þar sem 98% af íslensku sjávarfangi eru seld. Án góðrar fótfestu þar er tómt mál að tala um arðbæran sjávarútveg sem er ein meginstoð efnahagslegrar hagsældar á Íslandi.

Fjármunamyndun* í sjávarútvegi

Í milljörðum króna á föstu verðlagi 2020 **

*Fjármunamyndun er fjárfesting að frádregnum seldum eignum ** Miðað við vísitölu neysluverðs
Heimild: Hagstofa Íslands