pexels-photo-2004161.webp

Gögn og upplýsingar

Gögn leynast víða í sjávarútvegi

Upplýsingar og gögn um sjávarútveg og fiskeldi má finna víða. Á undanförnum misserum hafa sprottið upp ýmiss konar vefsíður og mælaborð þar sem má lesa sér til um hvað er að gerast á þessum vettvangi. Hér verður nokkurra getið og þeim gerð örlítil skil.

Radarinn.is

Upplýsingaveitan Radarinn.is, um helstu hagstærðir í sjávarútvegi og fiskeldi, var opnuð í október 2019. Skrifstofa SFS hafði unnið nokkuð lengi að undirbúningi hennar en aðalmarkmiðið var að hafa framsetningu á síðunni einfalda og skýra. Radarinn er nokkurs konar mælaborð fyrir sjávarútveg og fiskeldi. Þar eru birtar tölur og upplýsingar um atvinnugreinarnar og þær gerðar aðgengilegar öllum sem áhuga hafa á íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi. Fréttir og upplýsingar á Radarnum byggjast á opinberum gögnum. Þótt vissulega megi víða finna tölur um sjávarútveg og fiskeldi var þörf fyrir að þeim væri safnað saman og þær settar fram á skiljanlegan hátt. Með því móti er leitast við að gera staðreyndir um sjávarútveg og fiskeldi sjáanlegri og þar með verða þær uppspretta fréttatengds efnis og sögulegt yfirlit um þróun hinna ýmsu hagstærða.

Samfélag.sfs.is

Fyrirtæki innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa markað sér stefnu í samfélagsábyrgð sem grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Á síðunni má sjá stefnuna í heild sinni auk upplýsinga um kolefnisspor fisks, hlekki á samfélagsskýrslur félagsmanna, tæki og tól fyrir félagsmenn til að nýta sér til stuðning í vegferð sinni vegna innleiðingar samfélagsstefnu og upplýsingar um öryggis- og menntamál. Auk þess má finna upplýsingar um skilakerfi vegna endurvinnslu á veiðarfærum og hvernig standa ber að skilum á úr sér gengnum og afskrifuðum veiðarfærum.

Menntanet

Menntanetið geymir kennslu- og fræðsluefni um íslenskan sjávarútveg fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi. Námsefnið er rýnt og valið af kennurum á háskóla-, framhalds- og grunnskólastigi sem reynslu hafa af kennslu og námsgagnagerð. Aðgangur er að sjálfsögðu öllum heimill og gjaldfrjáls.

Mælaborð og kortasjá Fiskistofu

Hér eru nákvæmar upplýsingar um landanir, aflamark, hafnir, fisktegundir, skip og útgerðir.

Kortasjá

Kortasjáin auðveldar aðgengi að svæðisbundnum upplýsingum sem tengjast lögum, reglum og öðrum ákvörðunum stjórnvalda er varða sjávarútveg og fiskeldi. Á vefsvæðinu er hægt að nálgast upplýsingar um reglugerðarhólf og skyndilokanir í rauntíma.

Fiskbók Matís

Fiskbókin var opnuð almenningi til afnota í maí 2015. Það er von þeirra sem að útgáfunni standa að hún komi að góðum notum hjá öllum þeim sem sýsla með fisk, hvort sem það eru starfsmenn í hvers konar fiskvinnslu, nemendur eða almenningur. Í bókinni er samankominn fróðleikur um helstu nytjafiska, upplýsingar um veiði þeirra, s.s. veiðisvæði, á hvaða árstíma þeir veiðast og helstu veiðarfæri.

Stýrið

Stýrið er vefur sem sýnir staðsetningu fiskiskipa í rauntíma.

Loðnufréttir

Loðnufréttir er afar aðgengilegur vefur sem hleypt var af stokkunum í fyrra, þegar fyrir lá að stór loðnuvertíð var í uppsiglingu. Hér er hægt að fylgjast með loðnuveiðum og stöðu veiða hverju sinni, aflahæstu bátum, áætluðu verðmæti, heildarmagni, löndunarstöðum og fjölda landana og skipa. Allar upplýsingar á síðunni byggjast á opinberum gögnum frá Fiskistofu.

Vistey

Vistey er upplýsingagátt um vistkerfi sjávar í Eyjafirði, ætlað bæði heimamönnum til fræðslu um eigið umhverfi og fyrir aðkomumenn sem heimsækja svæðið. Verkefnið er samvinnuverkefni Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar við Háskólann á Akureyri og Arctic Portal. Upplýsingagáttin byggist að miklu leyti á stórbrotnum ljósmyndum og myndböndum sem Erlendur Bogason kafari hefur tekið.

Mælaborð fiskeldis

Þar er að finna allar helstu rauntímaupplýsingar er snúa að fiskeldi á Íslandi. Mælaborðinu er skipt eftir landshlutum og fjörðum. Þar er meðal annars að finna upplýsingar um lífmassa, laxalús, afföll, fjölda fiska, landsframleiðslu og ársframleiðslu.

200 mílur

Á þessu vefsvæði sem er á vegum mbl.is má sjá nýjustu fréttir af öllu því sem tengist sjávarútvegi og fiskeldi og tengdum greinum. Nefna má fréttir af aflabrögðum, verði á afurðum, olíuverði og nýjustu löndunum. Þá má einnig sjá þar fréttir frá erlendum sjávarútvegi.

Hafrannsóknastofnun

Á vef Hafrannsóknastofnunar er að finna margháttaðar upplýsingar um íslenskan sjávarútveg og fiskeldi. Stofnunin er rannsókna- og ráðgjafarstofnun og stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði haf- og vatnarannsókna.

Sjávarlíf

Erlendur Bogason kafari hefur um árabil myndað lífverur og náttúrumyndanir neðansjávar við strendur Íslands. Nú er afrakstur vinnu hans aðgengilegur á þessum vef. Á vefnum segir að ljósmyndirnar færi okkur nýja sýn á veröldina í undirdjúpum við Ísland. Það eru orð að sönnu.

Upplýsingar og gögn um sjávarútveg og fiskeldi má finna víða. Á undanförnum misserum hafa sprottið upp ýmiskonar vefsíður og mælaborð þar sem má lesa sér til um hvað er að gerast á þessum vettvangi. Hér verður nokkurra getið og þeim gerð örlítil skil.